Námskrá og mat

Skólaárið 2015-2016 var gefin út ný og endurskoðuð skólanámskrá fyrir leikskólann. Við vinnslu hennar var haft að leiðarljósi að námskráin yrði lifandi plagg sem myndi nýtast kennurum í leikskólanum í daglegu starfi með börnunum. Ákveðið var að vinna út frá fjórum  meginstoðum, lífsleikni, heilsu, sköpun og málrækt. Við teljum þessar fjórar grunnstoðir eiga vel saman og með þær að leiðarljósi getum við unnið að aðalmarkmiðinu okkar sem er að stuðla að heilbrigðri sál í hraustum líkama.

Þessar meginstoðir byggja á þróunarverkefnum sem við höfum unnið síðastliðin ár en þau helstu eru: Lífsleikni í leikskóla, Veggurinn – málrækt í leikskóla og einnig var mikið þróunarstarf unnið þegar leikskólinn gerðist aðili að Samtökum heilsuleikskóla. Sköpun hefur alltaf verið í hávegum höfð í leikskólanum og tengist hún inn í allt okkar starf. 

Námskráin er aldursskipt og í henni er ákveðinn stígandi þar sem gerðar eru meiri kröfur eftir því sem börnin eldast. Með námskrá Krógabóls fylgja matsblöð sem kennarar geta notað til að fylgjast með starfinu yfir veturinn. Á hverju hausti er farið yfir matsblöð frá árinu áður og námskráin uppfærð i kjölfarið.



Allir hópstjórar fá eintak af námskránni og kassa með því helsta sem þarf fyrir hópastarf. í kassanum er námskráin, litir, skæri og fleira gagnlegt fyrir hópastarfið. Í honum getur kennarinn geymt verkefni barnanna, námsáætlanir og fleira. Hver hópstjóri hefur einnig Ipad til afnota fyrir sig og hópinn sinn. Kennarar fylla reglulega inn í matsblöðin sem fylgja námskránni og nota námskránna til að skipuleggja starfið. 

Okkur fannst námskráin verða sýnilegri í starfinu eftir að hún var einfölduð og allir kennarar fengu sitt eintak til að vinna eftir. Kassinn auðveldrar skipulag og gerir það að verkum að námskráin fylgir kennaranum og er alltaf til staðar. 

 


Árgangastarf og samstarf milli deilda

Eftir að nýja námskráin okkar var gefin út höfum við unnið í teymum þvert á deildir. Þá koma saman þeir kennarar sem kenna hverjum árgangi og skipuleggja í sameiningu starf vetrarins þannig að samfella myndist á milli deildanna.


Námskrá í máli og myndum

Annað sem við höfum reynt að gera eftir að nýja námskráin kom er að gera hana sýnilegri fyrir foreldrum. Okkur langar til að námskráin okkar endurspeglist í öllu sem við gerum og að auðvelt sé að sjá tengslin á milli þess sem í henni stendur og þess hvernig við vinnum í daglegu starfi með börnunum. 

Á deild yngstu barnanna hafa undanfarin ár verið gerð skemmtileg myndbönd sem gefa innsýn í hvernig námskráin birtist í daglegu starfi, hér má sjá myndband frá skólaárinu 2015-2016 en þarna vorum við að hefja okkar fyrsta ár í innleiðingu snjalltækninnar og er þetta myndband afrakstur af vinnu kennara á yngstu deildinni. 

©Krógaból, 2017