Skólaárið 2015-2016 var þróunarverkefnið Læsishugtakið og námsumhverfið í leikskólanum – að koma til móts við nýja kynslóð unnið í samstarfi við Skólaþróunarsvið Háskólans á Akureyri. Verkefnið miðaði að því að innleiða snjalltækni/spjaldtölvur inní starfið með það að markmiði að vinna á skapandi hátt með málörvun. Verkefnið var styrkt af Sprotasjóði.
Verkefnið á rætur að rekja til þróunarverkefnisins Veggurinn - málrækt í leikskóla sem unnið var veturinn 2014-2015. Þá var málrækt á Krógabóli tekin til endurskoðunar. Í því verkefni skapaðist mikill áhugi meðal kennara og barna á að vinna út frá bókum, vísum og þulum. Í kringum þá vinnu fóru kennarar að fikra sig áfram við að nota spjaldtölvur á skapandi hátt í starfinu, m.a. til að búa til myndbönd, rafbækur og sögur á rafrænu formi. Í framhaldi af því var sótt um styrk til Sprotasjóðs til að þróa vinnuna áfram.
Leikskólinn fékk styrkinn og skólaárið 2015-2016 voru unnin nokkur verkefni þar sem málrækt og snjalltækni var fléttað saman á skapandi hátt. Þessi verkefni tókust vel og var afraksturinn m.a. sýndur á vorráðstefnunni Snjallari saman - upplýsingatækni og miðlun í skólastarfi á vegum MSHA og á Menntabúðum Eyþings.
Skólaárið 2015-2016 voru til fimm Ipad spjaldtölvur í leikskólanum, ein fyrir hverja deild. Kennarar sóttu námskeið og prófuðu sig áfram með tæknin í starfinu með börnunum. Mikill áhugi var á að halda verkefninu áfram og festa vinnubrögðin sem voru að byrja að þróast í sessi og því var aftur sótt um styrk frá Sprotasjóði nú undir formerkjum nýsköpunar. Í könnun sem kennarar skólans fylltu út kom í ljós að mörgum þótti vanta meiri stuðning á einstaklingsgrundvelli og þeir vildu að leitað yrði leiða til að allir tækju þátt. Með þetta að leiðarljósi var m.a. sótt um styrk til að greiða verkefnastjóra laun. Krógaból fékk styrkinn og nú var hægt að ráða verkefnastjóra í 30% starfshlutfall til að halda utan um verkefnið, kenna kennurum að nota tæknina og aðstoða þá við verkefnavinnu og úrvinnslu.
Nýja verkefnið fékk nafnið Nýsköpun og snjalltækni – að koma til móts við nýja kynslóð. Markmið þess miða að því að auka hæfni kennara í notkun snjalltækja í skólastarfi. Að kennarar læri saman, hjálpist að og miðli sín á milli því sem þeir læra og að aukin kunnátta og færni kennara leiði til nýsköpunar og framþróunar í starfinu.
Hér má lesa skýrslu um skólaárið 2015-2016:
Læsishugtakið og námsumhverfið í leikskólanum - að koma til móts við nýja kynslóð
Gerð var óformleg könnun meðal kennara í leikskólanum eftir skólaárið á hvaða öpp voru mest notuð, hér má sjá þau sem oftast voru nefnd:
Algengustu öpp/smáforrit á Krógabóli 2015-2016
@Krógaból, 2017