Imovie er frábært forrit til að klippa saman ljósmyndir og myndbönd. Imovie fylgir öllum Ipödum í dag og geta eigendur eldri tækja nálgast það frítt í App Store. Appið er einfalt og auðvelt að læra að nota það. Hægt að klippa saman myndir og myndbönd, lesa inn á eða bæta við tónlist. Einnig er sniðugt að nota Imovie t.d. til að bæta tónlist inn á verkefni úr öðrum forritum eins og t.d. Puppet Pals eða myndbönd úr Book Creator.
Þemaverkefni, sköpun og myndbandagerð
Oftast nýtum við snjalltæknina í tengslum við þemaverkefni. Við vinnum mikið út frá bókum en nýtum líka kveikjur úr daglega lífinu og tengjum verkefnin við sköpun, lífsleikni og vinnu með tungumálið.
Enn sem komið er eru það kennararnir sem búa til myndbönd en börnin eru aðalpersónurnar. Við notum myndböndin til að gera starfið sýnilegt og gefa foreldrum innsýn inn í ferlið sem liggur að baki verkefnum barnanna en einnig til að sýna viðfangsefni daglegs lífs í leikskóla á skemmtilegan hátt.
Stundum vinnum við líka ákveðin verkefni í gegnum myndbandagerð eins og þetta stórskemmtilega tónlistarmyndband sem var samvinnuverkefni barna og kennara, þar var áhugi barnanna látinn ráða ferðinni og búið til myndband við vinsælt popplag með áhugaverðum og grípandi texta.
Myndbrotin voru klippt saman í Imovie klippiforritinu sem fylgir öllum Ipödum. Börnin lærðu lagið um það sem er bannað utan að og veltu fyrir sér boðskapnum. Síðan var farið í margar vettvangsferðir til að taka upp, mjög skemmtileg leið til að flétta saman hreyfingu, málrækt, tónlist og grenndarkennslu. Stundum þurfti að redda auka leikurum og fá leyfi til að taka upp á hinum ólíklegustu stöðum. Eins og sjá má var þetta mjög skemmtileg vinna og útkoman frábær :) Börnin lögðu mikið á sig og ferðuðust um bæinn til að finna hentuga tökustaði. Mikil umræða átti sér stað um textann og miklar pælingar um hvernig best væri að útfæra hann myndrænt.
Hér fyrir neðan er myndband sem gert var í tengslum þemaverkefni um Nínu Tryggvadóttur en börnin fóru á listasýningu í Listasafninu og unnu svo fjölbreytt verkefni í kjölfarið, lærðu ljóð eftir Nínu og kynntu sér ævi hennar og störf. Þetta myndband sýnir hvernig við gerum starfið sýnilegt með myndböndum, markmiðið er að gefa foreldrum og öðrum sem á það horfa innsýn í ferlið sem liggur að baki þemavinnu.
Sýningin sem börnin fóru á heitir Litir, form og fólk og er eftir Nínu Tryggvadóttur, myndlistakonu og rithöfund. Í myndbandinu sést heimsókn barnanna í safnið, viðtal vð börnin þar sem þau segja frá því sem þau hafa lært og skemmtilegar myndir sem börnin teiknuðu í anda Nínu. Einnig fara börnin með ljóð úr einni af barnabókum Nínu.
©Krógaból, 2017