Hljóðkerfisvitund

Hljóðkerfisvitund er talin mikilvægur grunnur fyrir lestrarnám. Hljóðkerfisvitund felur í sér að geta greint mun á hljóðum í málinu og geta leikið sér með þau, t.d. að geta greint úr hvað hljóðum orð eru búin til, geta tekið orð í sundur og sett þau saman aftur eða breytt þeim í eitthvað annað t.d. með rími.


Bitsboard

Frábært forrit þar sem hægt er að búa til sín eigin verkefni. Notandi tekur myndir, skrifar texta og les inn á myndirnar og forritið sér um að búa til allskyns leiki í kringum þær eins og t.d. orðasúpu, stafapúsl, lestraræfingar o.s.frv. Einnig hægt að ná í myndir og verkefni á netið og njóta góðs af því sem aðrir hafa búið til. Ef leitað er að "íslenska" í verkefnasafni (catalog) appsins koma upp fullt af verkefnum íslendingar hafa búið til og deilt.

Í Bitsboard er auðvelt að búa til verkefni sem tengjast hljóðkerfisvitund.

Bitsboard á App store 


Orðagull

Smáforritið Orðagull er íslenskt smáforrit sem miðar að því að styrkja orðaforða, vinnsluminni, heyrnræna úrvinnslu og máltjáningu nemenda. Allt eru þetta mikilvægir undirstöðuþættir máls og læsis. Gengið er út frá því að smáforritið henti elstu börnum í leikskóla og börnum á yngsta stigi grunnskóla. Í gegnum skráningarkerfi forritsins er foreldrum og kennurum gert kleift að meta árangur og fylgjast með framförum. Orðagull er ókeypis. 

Möguleikar sem forritið býður upp á:
Að hlusta á og fara eftir heyrnrænum fyrirmælum
Muna og endurtaka fyrirmæli
Já og nei spurningar
Orðaforði
Orðalestur
Lesskilningur
Hlustunarskilningur

Orðagull á App store


Lærum og leikum með hljóðin 

Lærum og leikum með hljóðin er íslenskt kennsluefni sem miðar að því að efla hljóðkerfisvitund, framburð og tjáningu barna, hægt er að skoða efnið nánar með því að smella HÉR. Lærum og leikum með hljóðin, bækurnar, spjöldin, spilin, dvd diskurinn og appið miða að því að æfa framburð og efla hljóðkerfisvitund með börnunum. Fyrir skóla er alltaf best að kaupa aðgang að öllu appinu í einu en foreldrar geta keypt eitt og eitt hljóð eftir því hvaða hljóð barnið þeirra þarf að æfa, ekki er nauðsynlegt að kaupa allan pakkann.

Í appinu eru öll íslensku málhljóðin kennd á lifandi og skemmtilegan hátt með fyrirmynd fyrir hvert og eitt hljóð. Heiti bókstafanna og hljóð þeirra eru kennd með íslenska fingrastafrófinu um leið og lestrarferlið er undirbúið. Á sama tíma er réttur framburður hljóða kenndur. 

Lærum og leikum með hljóðin fyrir Ipad 


Froskaleikur

Froskaleikirnir segja frá froskinum Hoppa sem missir málið eftir að galdrakarl lagði á hann álög. Hoppi þarf að leysa ýmsar þrautir til að komast í kastalann sem geymir lausnina að því að hann nái málinu aftur. Börnin æfa íslensku málhljóðin í erfiðleikaröð þeirra og vinna með hljóðavitund, hljóðgreiningu, tengingu hljóðs við bókstaf, mynd af orði og skrifuðu orði. Allt eru þetta mjög mikilvægir þættir í hljóðkerfisvitund og nefnuhraða til undirbúnings læsi og lesfimi.

Froskaleikur fyrir Ipad


Orðaleikurinn

Íslenskur leikur fyrir börn sem eru farin að hljóða sig í gegnum orð. Í Orðaleiknum birtist mynd ásamt stafarugli sem þarf að raða í rétta röð. Orðaleikurinn inniheldur yfir 200 myndir og orð sem skiptast í 33 mismunandi flokka eða borð. Í hverjum leik eru 3 orð og ef þeim er öllum raðað rétt án þess að villa sé gerð, þá opnast næsta borð.

Orðaleikurinn fyrir Ipad


Paxel Rhyme Lotto

Myndarím á íslensku. Hægt að sækja sem App í Ipadinn en einnig er hægt að fara inn á vefsíðu Paxel www.paxel123.com og spila þar ýmsa málræktarleiki í borðtölvu. Á vefnum eru líka góðar hugmyndir fyrir foreldra og kennara varðandi málörvun og stræðfræðiverkefni fyrir börn. 


Osmo Words

Osmo er margverðlaunað leikja- og kennslutæki fyrir Ipad.  Í grunnpakkanum er standur fyrir Ipadinn og lítill spegill sem settur er yfir myndavélina, hann nemur það sem gert er fyrir framan skjáinn hvort heldur sem er með penna, hreyfingu, púslkubbum, bók- eða tölustöfum. Öppin sem fylgja tækinu eru frí og þau er hægt að sækja á App Store.

Það sem gerir Osmo leikina sérstaka er að í þeim er leikið með áþreifanlega hluti, notandinn handleikur púslukubba, tölu- og bókstafi, skriffæri og fleira til að hafa áhrif á það sem gerist á skjánum. Í leikjunum er m.a. hægt að púsla saman myndum úr formum, vinna með stafi, orð og tölur, þjálfa fínhreyfingar og rökhugsun, teikna, skapa og gera tilraunir.

Words er leikur að stöfum og orðum. Myndir birtast á skjánum, nemendur raða stöfunum saman og búa til orð sem passa við myndirnar. Tvö sett af stöfum fylgja grunnpakkanum, blátt og rautt, en þau gefa möguleika á að nemendur keppi hver á móti öðrum eða í liðum. Hægt er að hala niður verkefnum af heimasíðu Osmo en þau eru enn sem komið er flest á ensku.

Ef nota á Words í málrækt eða íslenskukennslu er sniðugt að búa til sín eigin verkefni en það er hægt með því að skrá sig inn á heimasíðu Osmo, hvort heldur sem er í Ipadinum eða í tölvu. 

Hægt er að deila verkefnum á milli notenda með því að senda link á milli t.d. í tölvupósti en einnig er til hópur á Facebook sem heitir: OSMO - verkefni á íslenskuog korktafla á Padlet með verkefnasafni. Þar er hugmyndin að deila verkefnum sem íslenskir kennarar hafa búið til á milli skóla. Allir sem hafa áhuga á OSMO sem kennslutæki eru velkomnir í Facebookhópinn og allir geta sett verkefni á Padlet síðuna. 

WORDS er sniðugt til að vinna með hljóðkerfisvitund hjá börnum í leikskóla og yngstu bekkjum grunnskóla, hægt er að vinna t.d. með fyrsta og síðasta staf/hljóð í orðum. Lengra komnir geta spreytt sig á heilum orðum og eldri börn sem farin eru að lesa geta leyst lengri og flóknari verkefni. Appið er sniðugt í tungumálakennslu en það hentar einnig vel til að vinna með orðaforða og ýmis lykilorð t.d. úr bókum og sönglögum.

Í Words er unnið með bókstafaþekkingu, hljóðkerfisvitund, stafsetningu auk þess sem hægt er að vinna með erlend tungumál.

Meira um Words með því að smella HÉR.

Words fyrir Ipad (Athugið að til þess að geta notað appið þarf að kaupa grunnpakkann með standi og bókstöfum)


Touch the Sound

Ódýr en skemmtilegur leikur sem minnir á gömlu góðu hljóðaspilin. Á skjánum birtast fjórar myndir, börnin hlusta á hljóð og eiga svo að velja þá mynd sem hljóðið á við. Fínn leikur til að æfa hlustun og athygli. 

Touch the Sound fyrir Ipad

©Krógaból, 2017