Ritun og miðlun

Puppet Pals HD

Frábært app í skapandi vinnu og málrækt. Puppet Pals var eitt af fyrstu öppunum sem við notuðum á Krógabóli til að búa til myndbönd með börnunum og er það orðinn fastur liður á elstu deildunum.

Í Puppet Pals geta börnin búið til sögur og leikrit. Þau velja eða búa til persónur og bakgrunna, búa til söguþráð og segja sögu í máli og myndum. Hægt er að taka söguna upp og skoða aftur seinna eða deila henni með öðrum. Í Puppet Pals HD er hægt að taka ljósmyndir eða myndir af vefnum og bæta inn í sögurnar. Þetta gefur möguleika á fjölbreyttri sköpun og undirbúningsvinnu, t.d. er hægt að teikna sögupersónur og bakgrunna og setja inn í sögurnar eða taka ljósmyndir af börnunum. Í Puppet Pals vinnum við með t.d. orðaforða, framsögn, endursögn og málvitund. Einnig læra börnin hugtök tengd sögugerð og læra að byggja upp sögur.  

Í Snjallsmiðjunni er hægt að lesa meira um Puppet Pals HD í leikskólastarfi og undir flipanum verkefni má finna verkefni sem unnin hafa verið í forritinu, t.d. þar sem myndlist og sögugerð er blandað saman, þar sem unnið er út frá sönglaginu um Maju maríuhænu og út frá þjóðsögum og ævintýrum með Gilitrutt, Búkollu og Gullbrá. Einnig er verkefni elstu barnanna Bókaormar unnið í þessu appi. 

Það er mikilvægt fyrir skóla að kaupa appið svo að allir möguleikar séu opnir. 

Puppet Pals fyrir Ipad


Puppet Pals 2

Puppet Pals II er skemmtilegt forrit til æfa sögugerð og framsögn. Hægt að velja sögusvið og persónur, setja inn ýmis farartæki og tónlist. Sögumaðurinn leikur leikritið, hann les inn á, hreyfir sögupersónurnar, getur breytt sögusviðinu og látið persónurnar ferðast um tíma og rúm. Einfalt í notkun.

Í Puppet Pals II er hægt að velja ýmis farartæki og bæta inn í sögurnar. Einnig er hægt að velja bakgrunna fyrir sögurnar, eins og t.d. geiminn, villta vestrið, hallargarð o.s.frv. Bakgrunnarnir í Puppet Pals II eru flæðandi og því er hægt að láta persónurnar fara um stærra svæði en í Puppet Pals HD. Í Puppet Pals II er einnig boðið upp á bakgrunnstónlist.

Sögurnar eru vistaðar niður sem myndbönd sem auðvelt er að deila á stafrænu formi.

Í Snjallsmiðjunni er hægt að lesa meira um Puppet Pals 2 í leikskólastarfi.

Það er mikilvægt fyrir skóla að kaupa leikinn þannig að allir möguleikar séu opnir. 

Puppet Pals 2 fyrir Ipad


Chatter Pix Kids 

ChatterPix er skemmtilegt smáforrit sem hvetur börn til að tjá sig. Hugmyndin á bak við forritið er einföld - að láta myndir tala. Hægt að skreyta og tala inn á alls kyns myndir, geta bæði verið myndir sem barnið hefur teiknað, myndir af netinu eða ljósmyndir. Myndbandið getur mest verið 30 sek. 

Á Krógabóli höfum við mest notað ChatterPix til að láta sköpunarverk barnanna tala, t.d. fígúrur og myndir sem þau hafa gert. Einnig voru gerð jólakort á einni deildinni með myndum af börnunum sem komu skemmtilega út. Að tala inn á mynd og sýna hinum í hópnum krefst hugrekkis og er frábær æfing í framsögn og miðlun. 

Í Snjallsmiðjunni er hægt að lesa meira um Chatter Pix Kids í leikskólastarfi.
Á vefsíðu Duck Duck Moose má sjá upplýsingar um Chatter Pix Kids og fleiri skemmtileg öpp frá þeim. 

Chatter Pix Kids fyrir Ipad


Draw & Tell 

Skemmtilegur leikur þar sem barnið teiknar mynd og talar inn á meðan. Á eftir er svo hægt að skoða myndband af ferlinu, sjá teikninguna verða til og heyra hvað barnið sagði.

Á vefsíðu Duck Duck Moose má sjá upplýsingar um Draw&tell og fleiri skemmtileg öpp frá þeim. 

Draw & Tell fyrir Ipad


Sago Mini Doodlecast

Leikir frá Sago Mini fyrirtækinu er vandaðir og hafa hlotið mörg verðlaun fyrir góða hönnun. Sago Mini leikirnir henta vel fyrir yngstu börnin, leikirnir eru opnir á þann hátt að barnið ákveður sjálft hvað það gerir, það er enginn ein rétt lausn, oftast snúast þeir einnig um einhverskonar sköpun. Sago Mini Doodlecast er app skemmtilegt til að æfa sig að teikna og segja frá. Hægt að tala inn á myndina á meðan að maður teiknar og sjá svo myndband af öllu ferlinu.

Myndböndin er hægt að nota á margvíslegan hátt t.d. setja þau í Book Creator bækur, á bak við Qr kóða eða deila þeim á einhvern hátt. 

Appið bíður líka upp á hálfkláraðar myndir, þá birtast t.d. dekk og barnið á að klára myndina, sniðugt til að æfa fínhreyfingar eða tjáningu í sérkennslu.

Sago Mini Doodlecast fyrir Ipad
Vefsíða Sago Mini Doodlecast.


Sögutengingar - Story Dice

Margir þekkja söguteningana, nú eru þeir líka til í appi. Hægt að velja hversu margir teningar eru notaðir og einnig hægt að bæta við allskyns þemum sem kosta lítið, t.d. risaeðlum, ævintýrum, íþróttum o.s.frv.  Teningunum er kastað og búnar til sögur um myndirnar sem koma upp, einnig væri hægt að hafa einn til tvo teninga og ræða myndirnar, skiptast á að kasta og segja hvað maður fékk. Einfalt forrit sem hægt er að nota til málörvunar á fjölbreytilegan hátt.

Vefsíða Story Dice

Story Dice fyrir Ipad
Story Dice fyrir Android

©Krógaból, 2017