Þjóðsögur og ævintýri

Eitt af vinsælustu verkefninum sem við höfum unnið í Krógabóli í snjalltækniverkefninu og það sem við höfum oftast verið beðin að kynna er sögugerð í Puppet Pals. Puppet Pals var eitt af fyrstu öppunum sem við byrjuðum að vinna með og sennilega það app sem við höfum notað mest ásamt Imovie klippiforritinu sem fylgir Ipadinum. Við erum búin að prófa allskyns útfærslur á verkefnum en það sem hefur verið vinsælast er að vinna út frá frásögnum, t.d. út frá barnabókum, vísum, sönglögum, þjóðsögum eða ævintýrum. 

Elstu börnin hafa t.d. unnið mjög skemmtileg verkefni þar sem þau endursegja þjóðsögurnar um Gilitrutt og Búkollu og ævintýrið um Gullbrá og birnina þrjá. Í þessum verkefnum er byrjað á að lesa sögurnar með börnunum og velta fyrir sér áhugaverðum orðum. Því næst er farið í að skapa sögusviðið og persónurnar, það er gert með fjölbreyttum hætti t.d. með teikningum, einingakubbum og hlutum sem finnast í leikskólanum. Þetta er sérstaklega skemmtilegt, miklar pælingar og spjall þar sem auðvelt er að auka orðaforðann og kenna orð sem tengjast sögugerð eins og t.d. persóna, bakgrunnur, byrjun og endir. Þegar allt er tilbúið er nauðsynlegt að velta fyrir sér uppsetningunni á sögunni, hversu margar persónur þarf að nota og hversu marga bakgrunna og hvernig þetta allt saman smellur saman svo að úr verði heildstæð saga. 

Það sem okkur finnst skemmtilegt við þessi verkefni er að í þeim fer fram mikil málörvun og sköpun. Þegar unnið er aftur og aftur með orðin í sögunni festast þau í minni hjá börnunum og þeim verður tamt að nota þau, börnin æfast í framsögn og læra að búa til sögur og segja skipulega frá.  

Verkefnin hafa verið unnin á ýmsa vegu, en alltaf í hóp þar sem eru 7-10 börn. Stundum hafa kennarar skipt sögunni niður og allir segja eitthvað en í öðrum tilvikum hafa börnin fengið að taka þátt að vild eða segja söguna með kennaranum. Börnin hafa mjög gaman af því að skoða sögurnar þegar þær eru tilbúnar og deila þeim með öðrum. 

Sagan um Gullbrá og birnina þrjá:


Hér má sjá tvær útfærslur á sögunni um Búkollu: 





Einnig er gaman að skoða hvernig unnið var með sönglagið um Maju maríuhænu í Puppet Pals en það má skoða með því að smella HÉR

©Krógaból, 2017