Maja maríuhæna í Puppet Pals

Félag leikskólakennara hélt samkeppni um besta tónlistarmyndbandið á Degi leikskólans 2016. Við ákváðum að taka þátt og búa til myndband við sönglagið um hana Maju maríuhænu en börnin höfðu verið að vinna með lagið á fjölbreyttan hátt í leikskólanum og þekktu það vel. Maja maríuhæna er danskt barnalag sem Birte Harksen þýddi yfir á íslensku. Birte Harksen heldur úti vefnum Börn og tónlist en þar er að finna urmul af góðum hugmyndum um hvernig hægt er að vinna með tónlist, sköpun og mál með börnum. Lagið um Maju maríuhænu er að finna á mjög skemmtilegum geisladisk sem Birte gaf út og allir leikskólar ættu að eiga. 

Myndbandið um Maju var unnið á einum degi og komu börnin að vinnunni eins mikið og þau vildu. Sum tóku þátt í öllu ferlinu á meðan að önnur komu og fóru. Sögusviðið var útbúið í miðju deildarinnar og nýttu börnin kubba, verðlausan efnivið, leikföng og ýmsa hluti sem þau fundu í leikskólanum til að útbúa umhverfið í sögunni. Þau voru mjög úrræðagóð og fengu m.a. lánuð tré sem önnur deild hafi búið til til að fullkomna skóginn hennar Maju maríuhænu. Ef eitthvað vantaði þá var auðvelt að bæta því inn með því að teikna. 

Börnin höfðu verið að vinna með Puppet Pals og þekktu því forritið og möguleika þess vel og voru fljót að átta sig á hvað þurfti til að skapa söguna. Í Puppet Pals er hægt að nota fimm bakgrunna og átta persónur/hluti í hverja sögu og því er mikilvægt að hafa yfirsýn yfir hvað á að gerast í hverri senu og hversu marga hluti/persónur getum við notað. Það er sniðugt að rissa upp einfalt söguborð til að skipuleggja frásögnina. Okkar reynsla er sú að börnin á elstu deildinni geti vel tekið þátt í slíkri vinnu. 
 




 

Mikil natni var lögð í verkefnið og börnin voru dugleg að finna lausnir á hinum ýmsu vandamálum sem komu upp. Hér má sjá skóginn verða til.
 

 

 

 

 

 

 



 

 

 

 

Hér er verið að útbúa rigninguna, fyrst þarf að teikna, svo þarf að klippa út í Ipad og vista myndina inní forritið. 

 

 

 



 

 

 

Brúðkaupið í enda sögunnar olli ýmsum vangaveltum. Hvernig getum við búið til brúðkaupsstemmingu í Puppet Pals, einhverjum datt í hug að nota blys enda áramótin nýlega afstaðin, okkur þótti það góð hugmynd og einn af kennurunum hentist heim og náði í pakka af blysum og svo var haldið útibrúðkaup í garðinum, en sögupersónurnar í laginu gifta sig um áramót.  

 

 

 

 

 

 

Í þessu verkefni eins og svo mörgum öðrum sem við höfum unnið í snjalltækninni skipti tæknin minnstu máli, mesta vinnan fór fram áður en við tókum upp Ipadinn þ.e. öll hugmyndavinnan, lausnaleitin og sköpunin sem fylgir því að endurskapa textann í sönglaginu og öll málörvunin sem fór fram þegar börnin veltu fyrir sér textanum og notuðu málið til að koma hugmyndum sínum á framfæri. 

 

 

 

 

 

Hér má sjá myndbandið fína sem bæði börn og kennarar voru afskaplega stolt af:

 

 

Við notuðum smáforritið Audio note til að taka upp sönginn, Puppet Pals til að búa til myndbandið og Imovie til að klippa allt saman. Þetta var mjög lærdómsríkt fyrir okkur kennarana hvað varðar tæknina þar sem við höfðum ekki prófað að nota þrjú forrit í eitt verkefni áður.  

 

©Krógaból, 2017