Osmo á Öspinni

Nokkrar stelpur á Öspinni prófuðu að nota OSMO til að æfa sig í bókstöfunum og stærðfræði.

Það sem er svo skemmtilegt við OSMO er að í því er unnið með áþreifanlega hluti, með tækinu fylgja bæði stafir og tölustafir sem hægt er að handleika og vinna með Ipadinum. 

Numbers

Stærðfræðileikurinn í Osmo er skemmtilegur fyrir öll börn sem eru farin að leggja saman og hentar því vel fyrir leikskólabörn. Leikinn má einnig nota til að æfa frádrátt, deilingu og margföldun fyrir þau sem eru lengra komin og börn á grunnskólaaldri.

Stærðfræðileikurinn gerist í sjávarheimi þar sem hægt er að safna fiskum, gefa þeim að borða og fylgjast með þeim stækka. Byrjendur geta notað spjöld með punktum til að leggja saman og þeir sem eru farnir að þekkja tölustafina geta notað þá. Börnunum á Krógabóli finnst leikurinn skemmtilegur og hann heldur athyglinni hjá flestum. 

Það sem er svo frábært við OSMO er að oftast eru fleiri en ein leið til að leysa vandamál, þannig er það líka í Numbers. Stærðfræðin verður skapandi og skemmtileg þegar börnin átta sig á því að þau geta leyst verkefnin á ýmsa vegu. Engin tímamörk eru í leiknum og börnin hafa því tíma til að prófa sig á eigin hraða.

Words

Stelpurnar prófuðu líka OSMO Words, þar voru þær að æfa hljóðkerfisvitundina með því að reyna að finna fyrsta staf í orðum. Leikurinn virkar þannig að kemur mynd á skjáinn og þær þurfa að giska á hvað er á myndinni og finna fyrsta stafinn í orðinu. Þetta gengur oft mjög vel hjá elstu börnunum. Hægt er að þyngja verkefnin og finna t.d. fyrsta og síðasta stafinn eða jafnvel allt orðið.

Kennarar geta búið til sín eigin verkefni í Words og höfum við t.d. búið til verkefni með persónum úr vinsælum bókum og með myndum af börnunum. Mjög skemmtileg, gagnvirk leið til að vinna með stafi og hljóð og gaman að geta tengt á einfaldan hátt verkefni í Osmo við önnur verkefni sem börnin eru að vinna t.d. út frá bókum.
 

Meira um Numbers og Words með því að smella HÉR.

 

 

©Krógaból, 2017