ChatterPix er skemmtilegt smáforrit sem hvetur börn til að tjá sig. Hugmyndin á bak við forritið er einföld - að láta myndir tala. Notandinn velur mynd og getur skreytt hana og ljáð henni rödd. Myndin getur verið af hverju sem er fólki, dýrum, hlutum, landslagi, mat o.s.frv. Myndbandið getur mest verið 30 sek.
Á Krógabóli höfum við mest notað ChatterPix til að láta sköpunarverk barnanna tala, t.d. fígúrur og myndir sem þau hafa gert. Einnig voru gerð jólakort á einni deildinni með myndum af börnunum sem komu skemmtilega út.
ChatterPix er til í Kids útgáfu (ChatterPix Kids) og við mælum frekar með henni, eini munurinn er á þeim límmiðum sem eru í boði til að skreyta myndirnar Í ChatterPix eru t.d. staupglös og fleira í þeim dúr í boði sem er ekki í Kids útgáfunni.
Hér má sjá bangsann úr bókinni Gott kvöld, börnin notuðu Chatter Pix til að gera stutt myndbönd þar sem þau létu bangsana sína tala, myndböndin voru sett á bak við Qr kóða sem foreldrar gátu skannað á vorsýningunni og séð myndband barnanna og hlustað á það sem bangsinn hafði að segja.