Veturinn 2014-2015 var málrækt tekin til endurskoðunar á Krógabóli og jafnframt unnin ný aldurstengd námskrá fyrir leikskólann.
Þróunarverkefnið Veggurinn dregur nafn sitt af því að allt málörvunarefni leikskólans var sett á áberandi stað miðsvæðis í húsnæðinu. Veggurinn sem varð fyrir valinu varð þannig að þungamiðju verkefnisins. Þar var málörvunarefnið flokkað í sex flokka eftir litum. Flokkarnir eru almenn málörvun, hljóðkerfisvitund, lestrarhvetjandi efni, sögugrunnur, stærðfræði og bókaverkefni. Með tilkomu Veggsins jókst aðgengi kennara að vönduðu efni til muna. Að hafa allt efni á sama stað, vel merkt og flokkað auðveldaði öllum kennurum leikskólans að vinna með málrækt á markvissan hátt.
Markmið
Markmiðið með þróunarverkefninu var heildstæð nálgun á málrækt, þ.e. að vinna með alla þætti málsins í daglegu og skipulögðu starfi. Lögð er áhersla á að flétta samræðu, tjáningu, hlustun, ritun, miðlun og lestri inn í leik og daglegt starf í skólanum, auk þess er unnið markvisst með orðaforða og skilning barnanna.
Námskrá skólans var endurskoðuð og forminu breytt, nú erum við með aldurstengdar námskrár sem auðvelda kennurum að skipuleggja starfið og laga það að aldri og þroska barnanna. Námskrá Krógabóls byggir á áhersluatriðum leikskólans og Aðalnámskrá leikskóla. Einnig voru búin til matsblöð sem gefa möguleika á því að kennarar meti starfið jafnóðum. Á hverju hausti er farið yfir matsblöð frá árinu áður og námskráin uppfærð i kjölfarið.
Til að auðvelda kennurum að skipuleggja málörvunarstundir voru búnar til kennsluleiðbeiningar með hugmyndum að fjölbreyttum verkefnum sem byggja t.d. á leik, hreyfingu og vinnu út frá bókum. Leitast var við að samþætta hreyfingu og dygðakennslu inn í verkefnin í samræmi við stefnu leikskólans. Mikið var lagt upp úr að verkefnin væru áhugaverð og byggðu á leik með málið.
Bækur, bækur, bækur...
Mikill áhugi skapaðist meðal kennara á að vinna meira og betur með málið í daglegu starfi og var því ákveðið að vinna þemaverkefni út frá bókum, vísum og þulum með börnunum. Þessi vinnuaðferð hefur gefist afar vel og verið vinsæl bæði meðal barna og kennara. Unnið er út frá einni bók í einu og henni gerð góð skil. Bókin, kennsluhugmyndir og verkefni eru sett í poka sem fer síðan á Vegginn eftir að þemaverkefninu lýkur. Þar hafa allir kennarar aðgang að verkefninu og geta unnið með það áfram og sett sitt mark á það sem í pokanum er. Dæmi um verkefni í pokunum eru lykilorð úr bókunum, myndapúsl, brúður eða annar efniviður sem táknar sögupersónur eða hluti, sönglög, hugmyndir að myndlistaverkefnum, spil, málræktarverkefni, hugmyndir að því hvernig hægt er að nota bækurnar með spjaldtölvum o.s.frv.
Málrækt og snjalltækni
Ákveðið var að halda áfram með þróunarverkefnið skólaárið 2015-2016 og nú með nýsköpun að markmiði. Okkur langaði að prófa og þróa nýjar leiðir til að vinna með málrækt og tengja hana við nýjustu tæki á skapandi hátt. Ákveðið var að sækja um styrk í Sprotasjóð. Styrkurinn fékkst og skólaárið 2015-2016 var unnið að því að innleiða Ipad spjaldtölvur í starfið. Innleiðing á nýrri tækni tekur tíma og var því ákveðið að halda áfram með verkefnið og sækja um áframhaldandi styrk frá Sprotasjóði fyrir skólaárin 2016-2018. Hann fékkst og erum við þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að spreyta okkur á þessu spennandi verkefni.
Samstarf við MSHA
Frá upphafi hefur MSHA - Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri verið okkur til halds og trausts, veitt okkur ráðgjöf og verið með fræðslu í leikskólanum tengda ofangreindum verkefnum.
Vefsíða
Á þessari síðu er hægt að kynna sér betur verkefnið okkar og vonum við að lesendur hafi gagn og gaman af.
Hér má sjá kynningu á verkefninu í máli og myndum en verkefnið hefur verið kynnt víða, m.a. á Stóra leikskóladeginum í Reykjavík.
Veggurinn - málrækt í leikskóla
Bæklingur um verkefnið
©Krógaból, 2017