Nýsköpun og snjalltækni - að koma til móts við nýja kynslóð 2016-2017

Verkefnið Nýsköpun og snjalltækni – að koma til móts við nýja kynslóð byggir á þeim grunni sem unninn var skólaárið 2015-2016 þegar fyrstu snjalltækin voru innleidd á Krógabóli. Verkefnið er hugsað til tveggja ára og lýkur því sumarið 2018. Það er styrkt af Sprotasjóði og nýtur stuðnings frá Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri - MSHA. 

Verkefnið miðar að því að efla færni kennara í notkun snjalltækja í skólastarfi og auka fjölbreytni í kennsluháttum og miðlun. Von okkar er að verkefnið muni leiða til nýsköpunar og að þar muni koma fram nýjar leiðir til að vinna á skapandi hátt með börnum. Leitast er við að vinna að framförum sem miða að því að gera betur, byggja ofan á fyrri þekkingu og horfa fram á við.
Markmið:

 • Að auka færni kennara Krógabóls í notkun snjalltækja í skólastarfi
 • Að kennarar kynnist fjölbreyttum leiðum til að nýta tækni í skólastarfi
 • Að kennarar læri saman, hjálpist að og miðli sín á milli því sem þeir læra
 • Að aukin kunnátta og færni kennara leiði til nýsköpunar og framþróunar í starfinu
 • Að nota snjalltækni til að vinna með málrækt og sköpun með börnum
 • Að verkefni kennara og barna verði gerð sýnileg til að aðrir geti lært af þeim

 Áhersluatriði:

 • Við lítum á snjalltækni sem verkfæri og nýja leið til að læra
 • Við tengjum snjalltækni við málrækt og sköpun
 • Við setjum skýr markmið
 • Við tengjum verkefnin við námskránna okkar
 • Við byggjum nám á leik, áhugahvöt og sköpunargleði
 • Við leggjum áherslu á að vinna útfrá hugmyndum barna og kennara
   

 


Skólaárið 2016-2017

Haldið var áfram á sömu braut og áður en aukin áhersla var lögð á að virkja alla með. Unnið var með málrækt, sköpun og snjalltækni undir formerkjum starfsþróunar og nýsköpunar þ.e. að  læra saman, miðla kunnáttu og leita nýrra leiða til að vinna á skapandi hátt.

Allir hópstjórar fengu spjaldtölvu til afnota fyrir sig og sinn hóp en áður var einn Ipad á hverri deild. Ef sérkennsla var í hópnum var gert ráð fyrir að sérkennarinn hefði einnig aðgang að spjaldtölvu hópsins. Afleysingar notuðu Ipada þeirra sem þeir leystu af. Allir hópstjórar unnu einnig a.m.k eitt verkefni á skólaárinu. Þannig lærðu allir vel á a.m.k eitt app sem nýttist í starfinu. Þetta varð til þess að fleiri tóku virkan þátt en áður. 

Verkefnastjóri var í 30% starfi veturinn 2016-2017 og hélt utan um verkefnið, hans hlutverk var að miðla upplýsingum, leiðbeina kennurum og aðstoða þá við verkefnavinnu en eitt af því sem kom í ljós eftir fyrsta árið var að kennurum fannst vanta meiri stuðning. Við rákum okkur einnig á að erfitt er að halda námskeið innan vinnutíma og því hentar einstaklingsstuðningur að mörgu leyti betur en kennarar geta þá fengið aðstoð t.d. í undirbúningstímanum sínum. 

Lögð var mikil áhersla á að vinna í anda lærdómssamfélagsins þ.e. að kennarar hjálpist að, læri saman á tækin, miðli þekkingu og upplýsingum sín á milli og hafi gaman að vinnunni. Hugmyndin er að með félagastuðningi byggist stöðugt upp ný þekking sem er nýtt og þróuð á vettvangi í þeim tilgangi að efla faglegt starf, stuðla að framþróun og nýsköpun. 

Starfið gekk vel og almenn ánægja var með að hópstjórar hefðu Ipad fyrir sig og sinn hóp, töluðu kennarar um að auðveldara sé að halda utan um verkefni og myndir og að Ipadinn væri alltaf til staðar þegar hópstjórinn þurfti að nota hann. Ef kennari þurfti að hafa fleiri spjaldtölvur fyrir ákveðið verkefni var alltaf möguleiki að fá auka tölvur lánaðar hjá hinum kennurunum.

Það hefur tekist vel að tengja verkefnin inn í starfið og við námskránna. Flest verkefni verða til þannig að fyrst kemur hugmynd og svo eru ákveðnar leiðir til að vinna út frá hugmyndinni. Ein leiðin getur verið að nýta snjalltæknina. Það er gaman að sjá hversu mikið kennurum hefur farið fram í notkun tækninnar og hvernig aukin kunnátta leiðir til nýrra hugmynda og leiða til að kenna og miðla. 

Mikilvægt er að fylgja þróunarstarfi vel eftir og finnum við aukið öryggi í starfsmannahópnum nú þegar verkefnið er á öðru ári. Verkefnið er til þriggja ára og munum við halda áfram að vinna með tæknina í bland við annað starf skólaárið 2017-2018.


Hér fyrir neðan má lesa nánar um skólaárið 2016-2017:

Snjalltækni í leikskóla - áfangaskýrsla 2016-2017
 

 

 

 

 

 

©Krógaból, 2017