Námsleikir - heima

Það er til hafsjór af allskyns leikjum sem margir hverjir eru markaðssettir sem námsleikir, það er því mikilvægt að vera gagnrýnin á það efni sem við bjóðum börnunum okkar upp á. Það er ekki nóg að lesa bara lýsinguna á leikjunum heldur er mikilvægt að við prófum þá sjálf.

Við fullorðna fólkið stjórnum hvað fer inn í símana og spjaldtölvurnar, við þurfum að vanda valið, vera ákveðin og bjóða bara upp á það sem okkur finnst vera við hæfi barnanna.

Við leggjum mikið upp úr því að nota vandað efni í leikskólanum og við mælum með því að foreldrar geri slíkt hið sama. Það er betra að eiga fáa góða og vandaða leiki og borga nokkrar krónur fyrir þá en að eiga fulla spjaldtölvu af efni sem á e.t.v. ekki erindi til barna eða er með óæskilegum uppspretti gluggum og auglýsingum. 
 

Þegar við veljum leiki göngum við út frá nokkrum forsendum:

  • Að leikirnir séu lausir við auglýsingar 
  • Að leikirnir séu lausir við ofbeldi 
  • Að leikirnir séu aðlaðandi og hafi góðan boðskap
  • Að leikirnir bjóði upp á tækifæri til að læra eða efla einhverja færni í gegnum skemmtilegan leik
  • Að leikirnir séu að mestu lausir við erlenda talsetningu og fyrirmæli, veljum íslenskt þegar hægt er og leiki sem er hægt að talsetja
  • Það er kostur þegar leikirnir eru opnir þ.e. þegar hægt er að gera hlutina á fleiri en einn hátt. 
  • Það er kostur þegar leikirnir snúast um sköpun, að búa eitthvað til t.d. sögur, teikningar, fígúrur eða annað.
     

Tölvuleikir geta verið skemmtileg leið til að læra en þar skiptir höfuðmáli að foreldrar eða kennarar séu nálægt og spjalli um það sem er að gerast á skjánum. Einnig bendum við foreldrum á að skoða viðmið um skjánotkun barna sem er að finna hér á síðunni. 


Nokkir leikir til viðbótar...

Það er um að gera að nýta allt það efni sem hér er fjallað um hér á síðunni líka heima, við notum leiki ekki mikið í starfinu almennt en þeir eru notaðir í sérkennslu og til að vinna með einhverja ákveðna færni í minni hópum. Stundum fá börnin að fara í leiki í spjaldtölvunum en það er þá tengt annarri verkefnavinnu, t.d. ef við erum að vinna með stærðfræði í hópastarfi þá gæti t.d  einn hópur verið í stærðfræðileik en mest er þó unnið með öpp eins Puppet Pals sem miða að því að skapa eitthvað og efla læsi í víðum skilningi. 

Hér á eftir koma nokkrir leikjaframleiðendur sem bjóða upp á vandað efni fyrir börn sem foreldrar geta skoðað. Þetta eru leikir sem við höfum prófað en erum ekki að nota í leikskólanum. 

Sago Mini

Vandaðir, einfaldir leikir sem hafa hlotið mörg verðlaun fyrir góða hönnun. Sago Mini leikirnir henta vel fyrir allra yngstu börnin, leikirnir eru opnir á þann hátt að barnið ákveður sjálft hvað það gerir, það er enginn ein rétt lausn. Oft snúast leikirnir um einhverskonar sköpun eins og t.d. að búa til hatta, skrímsli eða pöddur en einnig eru leikir þar sem reynir á talningu, að raða og flokka o.þ.h. Leikirnir eru lausir við auglýsingar og ofbeldi.

Hér er hægt að skoða leikina - Vefsíða Sago Mini
 


Dr. Panda

Vandaðir leikir þar sem unnið er með ýmsa færni í gegnum leik. Það eru til allskyns leikir í þessari seríu s.s. kaffihús, skóli, veitingastaður o.s.frv. sem sniðugt er að nýta til að auka ákveðinn orðaforða. Dr. Panda leikirnir hafa fengið ýmis verðlaun, þeir eru litríkir og fallegir, lausir við auglýsingar og ofbeldi. Ættu að geta gengið fyrir öll börn á leikskólaaldri. 

Hér má sjá myndband úr leik sem heitir Dr. Panda's Hospital, í myndbandinu er hægt að sjá hvernig leikirnir eru uppbyggðir, á spítalanum er nóg að gera og fullt af nýjum orðum sem hægt er að læra ef foreldri og barn spila leikinn saman. 
 

Hér er hægt að skoða alla leikina sem eru í boði - Vefsíða Dr. Panda.


Bugs and Buttons

Bugs and Buttons eru leikir þar sem unnið er með alhliða færni á borð við rökhugsun, talnaskilning, hugtakaskilning, fínhreyfingar o.fl. Aðalsöguhetjurnar í þessum leikjum eru pöddur eins og nafnið gefur til kynna og geta þær hentað þeim sem vilja örlítið minni krúttfaktor í leikina sína.
Hér fyrir neðan má sjá kynningar myndband um Bugs and Buttons leikinn: 

Það eru til nokkrir Bugs and Buttons leikir sem hægt er að skoða nánar með því að smella á hlekkina hér fyrir neðan, 

Bugs and Buttons fyrir Ipad
Bugs and Buttons fyrir Android
Upplýsingar um leikinn.

Bugs and Buttons 2 fyrir Ipad 
Bugs and Buttons 2 fyrir Android
Upplýsingar um leikinn.

Bug Art fyrir Ipad
Bug Art fyrir Android
Upplýsingar um leikinn.

Bugs and Bubbles fyrir Ipad 


Stafirnir okkar 

Stafirnir okkar er leikur fyrir börn á aldrinum 2-5 ára sem eru að læra að þekkja íslensku bókstafina og hljóðin þeirra. Einfaldur leikur eða nokkurs konar rafbók sem gengur mest út á að skoða stafina.


Stafa plánetur 

Stafa Plánetur er gagnvirkur vefur ætlaður þeim sem eru að byrja að læra stafina. Vefurinn er á svæði námsgagnastofnunar og því aðgengilegur úr öllum tölvum sem hafa nettengingu. Leikurinn hentar vel fyrir spjaldtölvur. Hægt er að spora stafina, skoða þá eða æfa sig að finna réttan staf eftir fyrirmælum. 

http://vefir.nams.is/stafaplanetur/


Tulipop

Stafaapp á íslensku, spjöld með stöfunum, lesið inn á bæði nafn stafsins og hljóðið. 


Georg og félagar, Georg og leikirnir

Íslenskur leikur með hinum sívinsæla Georg. Minnispil, samlagning, talnaskilningur o.fl. Bókstafir og tölustafir. Frítt app. 

 

©Krógaból, 2017