Bókaormar og Puppet Pals HD

Elstu börnin vinna árlega verkefni sem kallast Bókaormar. Verkefnið er samstarfsverkefni heimila og skóla og taka foreldrar þátt í því með okkur. Börnin velja bók heima og æfa sig að lesa hana, koma svo með hana í skólann og lesa fyrir hópinn sinn.

Verkefnið hefur gefið góða raun og hafa allir tekið þátt, sumir lesa með aðstoð og stuðningi frá kennaranum sínum á meðan að aðrir lesa alveg sjálfir og skálda í eyðurnar ef einhverjar eru. Fæst eru börnin farin að lesa upp á eigin spýtur heldur lesa þau út frá myndunum eða hreinlega læra bækurnar utan að. Það er virkilega gaman að sjá hversu mikla virðingu hópurinn ber fyrir bókaormi dagsins en í flestum tilvikum sitja þau stilt og prúð á meðan að á lestrinum stendur. Við höfum fengið allt upp í 18 mínútna flutning. Þetta er verkefni sem við mælum með, skemmtileg leið til að auka samstarf við foreldra varðandi læsi.  


Bókaormar og sögugerð

Bókaormur dagsins fær að vinna úr bókinni sinni með því að búa til myndband í Puppet Pals. Verkefnið er unnið á þann hátt að börnin taka myndir af myndunum í bókinni, búa til bakgrunna sem passa við og svo annaðhvort endursegja söguna eða búa til nýja með sömu persónum. Skólaárið 2016-2017 prófuðum við að bæta við mynd af barninu sjálfu inn í söguna sem kom skemmtilega út. Það er alltaf einhver þróun í verkefninu og eitthvað sem breytist ár frá ári. Við erum líka alltaf að verða klárari í að búa til myndbönd, klippa saman og gera útkomuna eigulegri fyrir foreldra.

Við höfum stundum tekið upplesturinn upp og búið til myndband með lestri barnsins og sögunni sem þau búa til og gefið foreldrum. Það er virkilega gaman bæði fyrir börnin og kennarann að vinna að þessu verkefni. Bókaormur dagsins fær að vera inni með kennaranum sínum eftir lesturinn á meðan að hinir fara í útiveru, við hliðrum til á deildinni þannig að það sé hægt. Kennarinn og barnið hafa þá nægan tíma til að vinna söguna í rólegheitum. Þetta hafa verið miklar gæðastundir og ekki oft sem við getum leyft okkur að sinna einu barni á þennan hátt.  

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér má sjá myndband búið til í Imovie sem sýnir ferlið í bókaormavinnunni, myndbandið fá börnin að eiga og er það sett inn á Google Drive þar sem foreldrar geta hlaðið því niður. Google Drive höfum við notað á öllum deildum til að deila efni með foreldrum á einfaldan og öruggan hátt.

 

©Krógaból, 2017