Börnin á Öspinni unnu mikið með Puppet Pals veturinn 2015-2016. Þá voru þau bæði að vinna verkefni út frá Bókaormunum sem hægt er að skoða hér á síðunni en einnig voru þau að búa til myndbönd út frá þjóðsögum og ævintýrum. Í kjölfarið skapaðist mikill áhugi á Puppet Pals. Börnin voru fljót að átta sig á hvernig appið virkaði og hvaða möguleika það bauð uppá.
Í Puppet Pals geta börnin búið til myndbönd út frá eigin teikningum og fóru þau því upp á eigin spýtur að teikna og klippa út persónur í frjálsum tíma sem þau fengu svo að setja inn í Puppet Pals appið og búa til sögur. Gaman var að sjá þennan sjálfsprottna áhuga barnanna og hversu vel þetta verkefni höfðaði til kraftmikilla stráka sem höfðu ekki sýnt mikinn áhuga á að teikna og klippa fyrr.
Út frá þessum mikla áhuga barnanna var ákveðið að gera myndlistarverkefni þar sem þau fengju frjálsar hendur til að skapa bæði persónur, bakgrunn og sögu. Útkoman var mjög skemmtileg, börnin teiknuðu og máluðu persónur, bjuggu til sögu og gerðu svo þrívíddar listaverk úr öllu saman. Sagan var sett á bak við Qr kóða þannig að þau gátu á auðveldan hátt deilt henni með öðrum.
Virkilega skemmtilegt verkefni þar sem sköpun, málrækt/sögugerð og snjalltækni blandast á áhugaverðan hátt.
Hér má sjá verk barnannna á vorsýningu og Qr kóðana við hliðina á verkunum, foreldrar og aðrir aðstandendur gátu skannað kóðann og hlustað/horft á sögu barnsins:
©Krógaból, 2017