Adobe Spark myndbandagerð

Adobe Spark er frítt forrit frá hinu gamalgróna Adobe fyrirtæki sem meðal annars bjó til Photoshop sem margir þekkja. Nú hafa þeir búið til app og vefsíðu sem hægt er að nota til að búa til bæði myndbönd, vefsíður og einblöðunga sem auðvelt er að deila með öðrum.

Ef leitað er að Adobe Spark í App Store þá koma upp þrjú öpp. Adobe Spark video sem við notum á Krógabóli til að búa til myndbönd, Adobe Spark Page sem hægt er að nota til að búa til fallegar vefsíður og kynningar á netinu og síðast en ekki síst Adobe Spark Post sem er app til að búa til myndir með texta, t.d. auglýsingar.

Adobe Spark Video fyrir Ipad
Adobe Spark Page fyrir Ipad
Adobe Spark Post fyrir Ipad

Á Krógabóli höfum við aðallega verið að nota myndbanda appið. Það er mjög einfalt í notkun, notandinn raðar upp myndum og myndböndum sem forritið sér svo um að búa til myndband úr, svipar til þess að raða upp glærukynningu. Auðvelt að bæta inn blaðsíðum/glærum á milli myndskeiða eða bæta inn texta á myndirnar. Hægt er að velja um ýmis þemu sem setja skemmtilegan svip á myndböndin. Einnig er hægt að lesa inn á eða bæta við tónlist. Mjög einfalt og þægilegt í notkun.

Adobe Spark er einnig hægt að nota í tölvum í gegnum netið. Hér má sjá myndband sem sýnir hvernig hægt er að nýta appið í skólastofunni. 


 

Adobe Spark á vefnum:

Adobe Spark vefsíðan
Adobe Spark í skólum - bæklingur fyrir skóla og kennara


Þemavinna í Adobe Spark

Skólaárið 2016-2017 unnu fjögurra ára börnin á Krógabóli með Siggu og skessuna í þemavinnu og þriggja ára börnin með Krumma. Kennararnir í leikskólanum vinna á teymum sem virka þannig að allir þeir sem eru með sama aldurshóp hittast reglulega og skipuleggja starfið þannig að það sé sambærilegt hjá öllum hópum þó svo að það vinni ekki allir nákvæmlega sömu verkefnin. Í ár eru t.d. fjögurra ára börn á fjórum deildum á Krógabóli og þriggja ára börn á þremur. 

Þemað í ár var Sigga og skessan hjá fjögurra ára börnunum og Krumminn hjá þriggja ára börnunum og unnu börnin alls kyns verkefni út frá sögunum um Siggu og söngvum um Krumma. Hér má sjá myndband sem búið er til í Adobe Spark appinu en það er mjög einfalt og þægilegt app til að klippa saman myndir og myndbrot úr starfinu, hægt er að tala inn á myndirnar eða nota tónlist. Frábært leið til að sýna ferlið á bak við sköpun barnanna. 

Þarna má sjá börnin búa til handbrúður og puttabrúður, þau búa einnig til leiksvið sem þau hjálpast öll að við að smíða og mála. Að lokum fá svo allir tækifæri til að vera með leiksýningu. Eins og alltaf er áherslan á leik, gleði, sköpun og málrækt, hér eru það kennararnir sem klippa afraksturinn saman í stutt myndband. 

Hér má sjá aðra útfærslu en þessi hópur bjó til fígúrur úr trédrumbum úr sögunni um Siggu. Sviðið var svo notað sem bakgrunnur í stutta Puppet Pals sögu þar sem börnin búa til stutta sögu út frá persónunum og því sem þau muna úr sögunum.  

Hér má sjá afrakstur af vinnu þriggja ára barnanna, en þau föndruðu Krumma, lærðu ýmislegt um lifnaðarhætti hans og lærðu skemmtileg Krummalög. 

Við mælum með að allir prófi Adobe Spark það er jafnvel enn einfaldara en Imovie.

©Krógaból, 2017