Qr kóðar

Qr kóði er nokkurskonar strikamerki sem hægt er að geyma gögn á bak við. Með því að nota app úr síma eða öðru snjalltæki er hægt að skanna strikamerkið og skoða efnið sem tengt er kóðanum. 

Hægt er að ná í alls kyns útgáfur af Qr kóða lesurum bæði fyrir Apple og Android tæki  í App Store og Play Store, hér fyrir neðan er slóð á frítt app sem er laust við auglýsingar og virkar hratt og vel:

Qr Reader fyrir Ipad
https://itunes.apple.com/us/app/qr-code-reader-by-...

Qr Reader fyrir Android
https://play.google.com/store/apps/details?id=me.s...

Það er auðvelt að búa til Qr kóða á netinu og þar eru ýmsar síður sem hægt er að nota, á sumum síðum þarf að greiða fyrir notkun en aðrar eru fríar eins og t.d.  http://www.qrstuff.com/

Á Qr stuff er einfalt að búa til og vista kóða sem svo er hægt að prenta út eða senda rafrænt. Sá sem fær kóðann getur skannað hann og séð hvað liggur að baki.



Hvernig er hægt að nota Qr kóða?


Deila efni með öðrum

Með Qr kóðum er hægt að deila efni á einfaldan hátt, til að hægt sé að deila efninu verður það að vera vistað einhversstaðar á netinu. Til dæmis er hægt að deila vefslóðum, myndböndum af Youtube,  hljóðskrám, myndum/efni sem vistað er í skýjum og efni af samfélagsmiðlum. Einnig er hægt að skrifa texta beint inn á Qr stuff og deila honum áfram.

Í Krógabóli höfum við unnið mikið með sögugerð og frásagnir í gegnum upplýsingatækni og hafa Qr kóðar gert okkur kleift að senda myndböndin heim og sýna þau á sýningum á einfaldan hátt. Mikil vinna liggur á bak við hverja sögu þar sem börnin búa til allar persónur og bakgrunna með fjölbreyttum vinnubrögðum á borð við myndlist eða kubba. Það er gaman að sjá heildarverkið í samhengi, þ.e. bæði listaverk barnanna og rafrænu sögurnar þeirra. Þannig geta foreldrar og aðrir sem hafa aðgang að kóðanum notið þess að sjá hvernig listaverkið verður til sem og alla vinnuna sem oft liggur á bak við. 

Kóðarnir gera einnig börnum kleift að deila sögunum sínum hvort með öðru án þess að þurfa á aðstoð fullorðinna að halda.





 

 

Málræktarverkefni

Qr kóðar hafa verið notaðir í vinnu með bækur og þjóðsögur. Á bak við kóðana á myndinni hér fyrir neðan eru spurningar úr sögunni um Búkollu og myndir af persónum úr sögunni sem börnin eiga að lýsa. Einnig höfum við sett sönglög af YouTube á bak við kóða til að einfalda okkur að sækja þau þegar við þurfum eins og t.d. Búkollu í flutningi Ladda.
 

 

 

 

 

 

 


Tækifæriskort

Í ár fylgdi Qr kóði með jólakortum barnanna til foreldra á einni deildinni, á bak við hann var lítið myndband með jólakveðju til foreldranna. Hægt er að gera alls kyns kort með Qr kóðum, t.d. boðskort á sýningar. 
 



Útikennsla

Við höfum einnig verið að prófa okkur áfram með að nota Qr kóðana til að búa til ratleiki og þrautabrautir á útisvæðinu. Hér fyrir neðan má sjá dæmi um þrautabraut með Qr kóðum, þá eru settar myndir á bak við kóðana og þeir látnir hanga hér og þar á leiksvæðinu, börnin finna kóðana skanna þá og fara eftir fyrirmælunum sem liggja á bak við.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


 

 

Qr kóðar bjóða upp á alls kyns möguleika í starfinu, börnunum finnst yfirleitt mjög spennandi að fá að skanna þá og skoða hvað er á bak við og foreldrar hafa gaman af að fá þá heim og skoða hvað börnin hafa verið að gera í leikskólanum.

Qr kóðar - Kynning af Gaman saman, lærum saman ráðstefnunni (október 2017). 

 

©Krógaból, 2017