Forritun í leikskóla

Mikið hefur verið rætt og skrifað um mikilvægi þess að börn í grunnskólum læri grunnhugsunina á bak við forritun en hvað með leikskólabörnin, eru þau of ung fyrir þess háttar hugarleikfimi? Við skelltum okkur, nokkrir kennarar, á námskeið hjá MSHA þar sem við kynntum okkur forritun fyrir leikskólabörn.

Á námskeiðinu var notaður forritanlegur róbóti sem kallast Kubbur á íslensku en Cubetto á ensku. Það sem fyrst vekur athygli við Kubb er vönduð hönnun sem minnir um margt á Waldorf leikföngin. Kubbur er úr við og með honum fylgja teppi/ævintýraheimar og bækur. Öll hönnun forritun fer fram án þess að nota skjá, í staðinn er notað stjórnborð með kubbum.  

 


Kubbur í Krógabóli

Eftir námskeiðið fengum við Kubb í heimsókn í leikskólann og höfðu börn frá tveggja ára og upp í sex ára gaman af að leika með hann. Hér má sjá yngstu börnin raða skipunum á stjórnborðið og fylgjast með Kubbi ferðast um teppið. Hér er Kubbur að ferðast um borgina en hvert teppi er með ólíkt þema, t.d. er eitt fyrir himingeiminn, eitt fyrir hafið o.s.frv. Hverju teppi fylgir bók sem hægt er að nota með teppinu, í bókinni er stutt saga um Kubb og leiðbeiningar um hvert hann á að fara. Auðvelt er að tengja vinnu með Kubb málrækt og stærðfræði.

Kubbur er flott viðbót inn í leikskólastarfið, hann er bæði hægt að nota í frjálsum leik og með ákveðin markmið í huga, t.d. í stærðfræðivinnu eða málrækt. Á heimasíðu Kubbs má sjá allskyns hugmyndir að verkefnum, t.d. að festa penna við Kubb og teikna með honum, nota einingarkubba og láta hann ferðast í kringum þá o.s.frv. 
 Hér má sjá stutt myndband frá heimsókninni:


Vefsíða Cubetto.
 

©Krógaból, 2017